
Einu sinni var lítil stúlka.
Hún bjó í litlum bæ, hátt uppi á hól í litlu húsi sem hét Sjónarhóll. Bærinn var í fallegum firði og frá Sjónarhól sá litla stúlkan yfir hafið. Stúlkan hét Bára, og þegar veðrið var gott, þá fannst henni skemmtilegast að horfa á hafið og sjá allar bárurnar glitra á haffletinum. Hún ímyndaði sér þær vera systur sínar og hvort sem sólin skein eða þegar að tunglið glitraði á hafflötinn, þá voru þær svo lokkandi og fagrar.
Bára var dugleg og góð stúlka, hún hjálpaði til við öll störf heima hjá sér, hvort sem það var að sækja vatn í bæjarbrunninn, matseld og bakstur eða að gæta systkyna sinna sem urðu brátt þrír yngri bræður, en hún átti líka einn eldri stjúpbróðir, af því mamma hans og pabbi voru svo veik að þau gátu ekki hugsað um hann.
Á Sjónarhól var alltaf ys og þys, og brátt var litla húsið á hólnum stækkað, af því að það voru ekki bara mamma, pabbi og börnin fjögur sem bjuggu á Sjónarhól. Þar var líka ein fullorðin frænka sem að var samt hálfgerður krakki, en það var af því að hún fékk bólgur í höfuðið þegar að hún var lítil, og þá gat hún ekkert lært. Það þurfti því alltaf að hugsa um hana eins og barn.
Mamma og pabbi Báru opnuðu litla búð í nýja stóra Sjónarhól, þar sem hægt var að kaupa mjólk og brauð og ýmislegt góðgæti. Bára vann oft við að afgreiða í búðinni sem allir í bænum kölluðu nú búðina á Sjónarhól.
Nú þurfti Bára ekki lengur að sækja vatn í fötu í bæjarbrunninn, því að á nýja Sjónarhól kom vatnið beint úr krana.
Bára litla varð snemma læs og var dugleg að reikna, en ekkert fannst henni meira gaman en að lesa ævintýrasögur.
Hún ímyndaði sér hvernig lífið var hjá prinsessum og prinsum… Glitrandi kjólar og skór, ævintýrahallir, riddarar, álfadísir, kóngar og drottningar. Mjallhvít, Öskubuska og Þyrnirós voru í uppáhaldi því að þó að það væri vond stjúpa og stjúpsystur, þá enduðu ævintýrin alltaf með því að prinsinn og prinsessan fundu hvort annað og lifðu hamingjusöm til æviloka.
Barnaskólinn í bænum var við lítinn læk, þar sem endur og svanir áttu heima á sumrin en á veturna fraus hann alveg í gegn, og fóru þá þau börn sem áttu skauta oft að leika sér þar. Báru fannst gaman í skólanum, það var gaman að læra allt, en mest þótti henni gaman í söng og hafði hún svo bjarta og tæra rödd að hún var fengin til að syngja einsöng fyrir allan skólann.
Og enn fjölgaði fólkinu á Sjónarhól. Bára eignaðist litla systur, en mamma þeirra fékk slæma veiki og varð að liggja í rúminu lengi til að geta batnað. Pabbinn sem vann á sjónum og var því lítið heima, breytti nú um vinnu og fór að keyra vörur og fólk á milli staða, til að geta verið meira heima hjá veiku konunni sinni, börnunum fimm og fullorðnu frænkunni sem var líka barn.
En bærinn stækkaði sífelt og göturnar tengdust öðrum bæjum, og alveg inn í stóru borgina. Pabbinn var því lengur og lengur að heiman, því að vegirnir voru oft bara úr mold og grjóti, og bílar gátu ekki farið hratt, en samt miklu hraðar en fljótur hestur.
Á Sjónarhól vantaði nú einhvern til að hugsa um veiku mömmuna, börnin og búðina, þá var fengin stúlka úr bænum að hjálpa til, og þegar vorið kom voru öll yngri systkinin send í sveit til að vinna. Yngri bræðurnir voru sendir austur til góðra vina mömmu þeirra og pabba.
Bára var 12 ára þegar að hún var send með systur sína sem var bara tveggja ára í vist. Þær fóru á litlu skipi en Bára hafði aldrei fyrr komið í bát eða skip, hún hafði bara séð þau við litlu höfnina eða úti á firði. Hún þekkti flest skipin, og bátinn sem að pabbi hennar vann á þekkti hún alveg frá Sjónarhól. Bára vafði systur sinni í sjalið sitt og söng fyrir hana með björtu röddinni svo að hún yrði róleg þegar að skipið sigldi út fjörðinn. Sjáðu litla systir mín við erum hér með þér allar bárurnar, og bráðum batnar mömmu og allt verður gott á Sjónarhólnum okkar aftur, sagði Bára.
Litlu systur fór hún með til frænku í vist, en sjálf fór Bára norður í sveit, hluta af leiðinni fór hún í skipi svo með rútu, og síðasta spölinn fór hún með mjólkurbílnum (en það var bíllinn kallaður sem fór og sótti mjólkina á alla sveitabæina)
Fólkið í sveitinni var gott og Bára var dugleg að vinna þar eins og heima. Í sveitinni þurfti að mjólka kýrnar, hugsa um kindurnar, slá grasið, þurrka það, raka og safna því inn í hús, svo að dýrin hefðu nóg að borða yfir veturinn. En mikið saknaði hún mömmu sinnar og pabba, systkynanna og frænku, hún saknaði líka Sjónarhóls og hún saknaði þess að horfa yfir hafið. En þegar að Bára varð leið, þá hugsaði hún um ævintýrin og allt varð miklu betra, í sveitinni voru líka til sögubækur sem að hún mátti lesa þegar að hún var búin að vinna á kvöldin.
Um haustið fengu öll systkinin að koma heim á Sjónarhól. Mamma var enþá lasin en samt aðeins hressari en hún var um vorið. Bára fór í skólann og vann í búðinni eins og áður, það var verið að stækka bátabryggjuna í bænum og byrjað að byggja bíóhús. Báru hlakkaði svo til þegar það yrði tilbúið, hún var farin að safna myndum af leikörum frá útlöndum (en leikaramyndirnar fylgdu með tyggjópökkum sem að hægt var að kaupa í búðinni)
Alltaf var líf og fjör á Sjónarhól og allir voru glaðir af því að mömmu batnaði, en um vorið fóru börnin aftur í sveitina og vist – það var samt miklu betra núna því mamma var ekki lengur veik. Svo komu allir saman á Sjónarhól um haustið.
Í nokkur ár fór Bára norður í sveit, og nú var hana farið að hlakka til að fara í sveitina og hlakka til að koma aftur heim á Sjónarhól.
Bára var ekki lengur barn heldur var hún orðin falleg og góð, ung stúlka, með gráblá augu eins og hafið. Hún var með rjómalita húð, bleikan roða í kinnum og bleikar varir, en kórónan hennar var sítt, þykkt og mikið skolleitt liðað hár, sem glitraði svo fallega í sólinni að brátt fékk hún viðurnefnið Bára hafnarfjarðarsól. Hún var svo létt í lund og á fæti að oft var eins og hún svifi frekar en gengi. Bára elskaði alltaf ævintýrin og þó að margir ungir menn renndu til hennar hýru auga, þá var hún viss um að prinsinn hennar myndi koma einhvern daginn. Svo gerðist það einn sólríkan sumardag, þegar Bára var átján ára, skólagangan hjá henni var búin, og hún var farin að vinna við að salta síld á nýju bryggjunni í firðinum, að nokkrir menn komu gangandi frá einu skipinu við bryggjuna.. Henni fannst þeir minna sig á fornaldarmenn af því að þeir virkuðu svo gamlir í fasi.
Svo var eins og tíminn stæði kyrr, allt loftið fór að glitra, Bára sá að einn af mönnunum var ungur og glæsilegur, hávaxinn með gullbrúna húð, dökk brún augu og hrafnsvart stutt liðað hár. Hann var í hvítri peysu með svörtum doppum, – hann var allveg eins og Bára ímyndaði sér prinsinn sinn.
Bára kom heim á Sjónarhól um kvöldið, hún gat ekki hugsað um neitt nema um unga manninn sem hún sá á bryggjunni, hún vissi að hann var prinsinn hennar… Bára leit yfir fjörðinn. Það var tunglskin, og þarna voru þær systur hennar á glitrandi haffletinum. Takk takk elsku systur hvíslaði Bára, fyrir að senda prinsinn minn til mín. Svo sveif hún syngjandi um allann Sjónarhól.
Einn daginn kemur prinsinn minn, söng Bára alveg eins og Mjallhvít söng í ævintýrinu. Allt heimilisfólkið horfði agndofa á Báru, af því að hvar sem hún fór um þá ylmaði allt húsið eins og af sætustu blómum, og allt sem hún snerti virtist glitra. Yngri systkini sín greip hún á loft og kyssti í hvert sinn sem þau urðu á vegi hennar. Svona gekk þetta í marga daga.. (yngri bræður Báru voru farnir að fela sig þegar Bára kom svífandi og syngjandi um húsið)
Um haustið var vinnan við síldarsöltunina búin, og Bára vann í búðinni. Hún hugsaði um prinsinn sinn daginn út og inn. Alltaf ylmaði loftið meira og meira af blómum á Sjónarhól. Það tóku samt ekki allir eftir því strax, en brátt sáu allir í bænum að það var eins og haustið kæmi bara alls ekki á Sjónarhól, því að ef það var skýjað yfir öllum bænum þá var samt alltaf pínulítið gat á skýjinu til að senda nokkra sólargeisla á hólinn. Fólkið í bænum undraðist sæta sumar blómaangan á Sjónarhól, nema heimilisfólkið, en þau vissu öll að þetta var út af Báru.
Svo gerðist það um haustið að ungi maðurinn, prinsinn hennar Báru birtist fyrir framan hana í búðinni. Hann var í hvítu peysunni með svörtu doppunum, alveg eins og þegar hún sá hann fyrst. Og hvað gerðist þarna inni í búðinni á Sjónarhól veit nú enginn allveg fyrir víst, en ábyggilega voru þar töfrar á ferð, því að nokkrum dögum síðar fóru ungi maðurinn og Bára í bíó, og komu heim trúlofuð.
Í byrjun vetrar voru þau gift, ungu hjónin geisluðu af hamingju. Nú voru þau orðin 9 sem bjuggu á Sjónarhól, því að prinsinn hennar Báru fékk að búa þar líka.
Regnboginn kom yfir Sjónarhól og honum leist svo vel á sig þar að hann vildi helst ekki fara. Eða alveg þangað til að yngri bræðrum Báru varð alveg nóg um, og þeir klifruðu alla leið upp á þakið á Sjónarhól því þeir voru nú orðnir kattliðugir og sterkir strákar, og þeir ýttu allir í einu svo fast á regnbogann að hann rankaði loks við sér og ákvað að fara yfir fjörðinn.
Í ævintýrunum þá endar sagan alltaf þegar prinsinn og prinsessan giftast og þau lifa hamingjusöm til æviloka. En Bára átti ekki höll eða glitrandi kjóla og skó, hún átti prinsinn sinn og saman ætluðu þau að eignast mörg börn og byggja sitt konungsríki.
Ungi maðurinn fór á sjóinn að vinna, eins og flestir ungir menn gerðu. Oft var hann lengi í burtu, því að skipið fór í kring um landið alveg þangað til að það var fullt af fiski og þá var farið með fiskinn í næstu höfn. Það var nýkominn sími á Sjónarhól, það voru alls ekki margir sem að voru komnir með síma, en Bára hugsaði sí og æ um prinsinn sinn, og stundum fór hún að tala við systur sínar Bárurnar á sjónum og bað þær fyrir kveðju til hans, af því að auðvitað gat hún ekki hringt í hann á skipið..
Bára var glöð, hún var komin með barn í magann og það var gott að vera á Sjónarhól. Flestir í fjölskyldunni hjálpuðust að við að vinna í búðinni, nema eldri stjúpbróðir hennar og pabbi, en þeir voru báðir bílstjórar. Mamma Báru kenndi henni og litlusystur allskonar handavinnu, og þær hekluðu, prjónuðu, og saumuðu öll kvöld – og stundum gleymdu þær sér alveg, og voru að fram á rauða nótt. Urðu þær brátt langflinkustu handavinnukonurnar í bænum.
Fullorðna frænkan sem að var líka barn, lærði líka að prjóna, þó að hún gæti bara talið upp á fimm.
Seint um sumarið eignaðist Bára myndarlegann ljóshærðan dreng, en prinsinn hennar sá hann ekki í 2 vikur, af því að hann var enþá að vinna á sjónum. Og mikið var hann glaður að sjá barnið og Báru sína aftur. En hann varð víst að halda áfram að vinna, og þegar hann fór aftur á sjóinn, gekk allt sinn vanagang á Sjónarhól. Bára var aftur komin með barn í magann, og lítil dökkhærð stúlka fæddist einuári og fjórum mánuðum síðar, eða í byrjun vetrar þarnæsta ár. Bára var glöð af því að nú voru þau öll saman. Og þegar litla dökkhærða prinsessan var komin, áttu 11 manns heima á Sjónarhól.
Næstu árin fjölgaði fólkinu í bænum ört, og enn stækkaði höfnin og skipin urðu stærri. Stór hús til að vinna fiskinn voru byggð, og margir fengu fiskvinnu þar. Fiskurinn var ýmist saltaður, þurkaður eða frystur, og síðan mest seldur til útlanda. Þurrkaði fiskurinn var að meira að segja sendur alla leið til Afríku.. Prinsinn hennar Báru var einn af þeim sem fékk vinnu þar, og þá þurfti hann ekki að vera alltaf lengi í burtu að heiman. Hann var svo duglegur að vinna að brátt varð hann verkstjóri.
Það veiddist svo mikill fiskur, að fólkið vann alla daga og öll kvöld. Fljótlega fór Bára líka að vinna í fiskvinnunni. Börnin hennar voru þá á Sjónarhól hjá ömmu sinni og afa og þau fóru líka í barnaskólann við lækinn. Ljóshærði drengurinn hennar var eins og hún, hann varð snemma fluglæs og hann hjálpaði litlu systur sinni að læra að lesa og reikna. Þau voru bæði dugleg og góð börn.
Bára og prinsinn hennar keyptu nú land í hvamminum rétt hjá Sjónarhól og byrjuðu að byggja hús þar. Á Sjónarhól var ennþá að fjölga fólkinu, því að nú voru yngri bræður Báru búnir að eignast sínar prinsessur og þær farnar að eiga börn.
En allir hjálpuðust að, og fyrr en varði voru þau Bára og prinsinn hennar flutt inn í húsið sitt. Þá voru börnin orðin þrjú, því nú voru þau búin að eignast lítinn og dökkhærðann dreng, sem var orðinn ársgamall og hann vildi líka hjálpa til. Hann kallaði sí og æ til Báru mömmu sinnar, mamma nadli, mamma, nadli. – Auðvitað var hann að reyna að segja nagli, en hann var nú bara nýbyrjaður að læra að tala.
Oft var Bára þreytt að vinna svona mikið, fiskivinnan var erfið, og oft var blautt og kalt. Svo var það auðvitað slorlyktin, en það finnst nú engum hún góð, (slorlykt er líka alveg eins og svakalega mikil fiskifýla) En Bára hugsaði alltaf um ævintýrin, og þá varð allt miklu betra, hún og prinsinn hennar voru dugleg að byggja konungsríkið sitt. Þau keyptu glitrandi kristalsljósaskrónur frá útlöndum, alveg eins og í alvöru konungshöll.. Bára var líka alltaf að skreyta heima með allskyns handavinnu sem að hún bjó til og allt var fínt og fallegt.
Eftir sjö ár voru komin sex hús í hvamminn, og hét hvammurinnn núna Hraunhvammur af því að þar var svo mikið hraun. Þau eignuðust nú ljóshærða stúlku. Eldri börnin þrjú voru öll byrjuð í skóla og í staðin fyrir að fara í sveit á sumrin, fóru tvö elstu börnin að vinna í fiskinum með mömmu sinni og pabba, og auðvitað voru þau dugleg að líta eftir yngri systkynum sínum líka. Börnin voru öll mikið hjá ömmu sinni og afa á Sjónarhól þegar að mamma þeirra og pabbi voru að vinna, en þar var alltaf jafn mikið líf og fjör af því að börn yngri bræðra Báru og litlu systir hennar, – sem var orðin ung kona núna, voru líka mikið á Sjónarhól. Frændsystkinunum fannst þau vera alveg eins og bræður og systur, og amma þeirra kenndi þeim öllum handavinnu, sum voru rosalega flink en önnur smáveigis klaufar, en það var alltaf skemmtilegt að vera saman.
Oft voru krakkarnir að hekla eða prjóna með fullorðnu fænkunni, en hún var orðin eldgömul kona núna, með pínkulítið stinguskegg, samt var hún enþá eins og barn, og kunni enþá bara að telja upp að fimm.
Bára sagði börnunum sínum ævintýri og sögur, hún sagði þeim sögur þegar þau voru að borða matinn sinn, og þegar að þau fóru að sofa. Alltaf var hún að sauma, prjóna og hekla á þau falleg föt. Því hún vildi að þau væru fín, alveg eins og prinsar og prinsessur.
Og aftur var barn í maganum á Báru, en núna gekk ekki allt eins og í sögu, því að barnið lifði ekki og Bára og allir voru mjög sorgmæddir. En alltaf gat Bára hugsað um ævintýrin og alltaf var mikil vinna í fiskinum. Nú voru börnin hennar öll í skóla, og Bára og prinsinn hennar héldu áfram að byggja upp konungsríki fyrir prinsana og prinsessurnar sínar.
Fleiri og fleiri hús voru byggð og fólkinu fjölgaði enn, krakkar í bænum söfnuðu leikaramyndum og fóru í bíó. Mest voru myndirnar um indjána og kúreka og þau voru svo spennt í bíóinu, að þau næstum gleymdu að bíóið var bara bíó, því þau þóttust vera með í myndinni – og þá voru nú heldur betur læti. Svo voru líka komnar margar fínar búðir þar sem hægt var að kaupa allskonar tískuföt alveg eins og í útlöndum. En alltaf áttu börnin hennar Báru fallegustu prjónuðu peysurnar, með allskonar fallegum mynstrum.
Göturnar breykkuðu og sumar voru malbikaðar, bílar keyrðu hraðar, og það voru til allskonar tegundir frá ýmsum löndum. Margir áttu því bíla og brátt áttu eldri börnin hennar bíl. Ljóshærði drengurinn hennar var nú orðinn ungur maður með skolleit hár, og hann fór í skóla í borginni.
Einu sinni enn kom sorgin á Hraunhvamminn, því aftur dó lítið barn sem Bára átti.. En allir hjálpuðu Báru, og hún var allaf að hjálpa fjölskydunni sinni og vinum. Hún hugsaði líka um allt fólk og öll börn, en hún var glöð, af því að hún átti fjögur heilbrigð og góð börn, góðann mann, góða fjölskyldu og vini. Hún hugsaði; það eru margir í heiminum sem eiga mjög bágt, og ekki gleymdi hún börnunum sem ekki áttu mömmu eða pabba, eða þeim sem voru veikir, hvort sem það voru fullorðnir eða börn. Alla reyndi hún að gleðja, svo hún bjó til fallega handavinnu, bakaði brauð eða samdi ljóð handa fólki – og stundum söng hún ljóðin sín í veislum þegar að fólk átti afmæli eða gifti sig.
En síðan kom sjónvarpið, þá sátu fullorðnir og börn saman á kvöldin og horfðu á það saman, þeir sem áttu ekki sjónvarp fóru í heimsókn til annars fólks að horfa. Á Hraunhvamminum var næstum eins og að vera í bíó þegar að fyrsti maðurinn steig á tunglið, því að allir horfðu á það saman í sjónvarpinu. Af húsunum sex í hvamminum, var bara eitt sjónvarpstæki, og það var heima hjá Báru. En myndin var bara grá, svört, eða hvít, því ekki voru komnir neinir litir í sjónvarpið. Öllum fannst mjög skemmtilegt að horfa á það, og margir lærðu að skilja ensku, af því að allar bíómyndirnar voru á ensku.
Nú var sjónvarpið komið í lit, og prinsinn hennar Báru var kominn með mörg hvít hár á höfuðið. Það var ekki lengur mikill fiskur til að vinna, en það var af því að núna voru skipin orðin svo stór, að það var hægt að frysta fiskinn um borð í skipunum og sigla með hann beint til útlanda. Hann fór þá að vinna í stóru verksmiðjunni í bænum sem bjó til ál, en úr álinu voru búnir til pottar, pönnur, og ýmislegt annað. Í álverkssmiðjunni fengu margir menn vinnu eins og hann. Það var samt svolítið skrítið, því að stundum vann hann ekki á daginn, en í staðin vann hann á kvöldin og á nóttunni. Það er kallað vaktavinna. Bára fékk líka nýja vinnu, hún fékk vinnu hjá litlu systur sinni sem að átti núna handavinnubúð. Henni fannst það mikklu skemmtilegra en fiskvinnan, og þar hitti hún svo mikið af vinkonum sínum sem voru að kaupa garn og prjóna, eða myndir til að sauma og margt, fleira.
Báru fannst gaman að fara í vinnuna, hún labbaði alltaf fram hjá Sjónarhól, en þar var einn yngri bróðir hennar búin að taka að sér búðina. Alltaf fannst henni jafn gaman að horfa yfir fjörðinn á hafið, því að hún ímyndaði sér Bárurnar systur sínar alveg eins og þegar að hún var ung stúlka.
Og svo varð Bára amma, og allir kölluðu hana amma Bára – alveg sama hvort hún var amma þeirra eða ekki. Alltaf var hún á ferð og flugi því að nú voru börnin hennar ýmist í útlöndum eða búin að flytja í sín egin hús. Synir hennar áttu stórar og fínar búðir, og elsta dóttir hennar var flink að elda mat fyrir veislur, svo vann hún líka í búðinni hjá stóra bróður sínum, en yngsta dóttir hennar málaði myndir.
Þegar amma Bára varð 60 ára þá lærði hún að keyra bíl. Þá gat hún farið í margar heimsóknir og keyrt út um allan bæ og borg. Alltaf var hún með eitthvað í töskunni sinni til að gefa.
Amma Bára sagði núna barnabörnunum sínum ævintýri og sögur en Amma Bára gat talað bæði þegar hún andaði inn, og þegar að hún andaði út, hún þurfti aldrei að stoppa að anda á meðan að hún talaði. Svo saumaði hún myndir af ævintýrunum, þá gátu börnin séð allt ævintýrið í einu, og þurftu ekki einu sinni að kunna að lesa.
Amma Bára var svo glöð því nú átti hún mörg barnabörn-prinsa og prinsessur, henni fannst svo gaman af því að öll voru þau ólík, ljós eða dökk, lítil og stór, Og öll áttu fallegustu prjónuðu peysurnar í bænum, stúlkunum gaf hún glitrandi kjóla en drengjunum gaf hún prinsaföt, og nú átti hún líka marga glitrandi og flotta skó -alveg eins og prinsessurnar í ævintýrunum. Þykka hárið hennar var nú silfurlitað og þegar sólin skein á það, þá glitraði það eins og hafið í tunglskyni.
Svo gerðist það smásaman að þegar að amma Bára ætlaði að fara að labba, þá fór hún strax að hlaupa þó að hún tæki bara pínulítil skref, en hún hljóp svo hratt að það var bara rétt hægt að sjá rauðu kápuna hennar þjóta framhjá. Margir urðu steinhissa, þegar allt í einu var komið heitt brauð á borðið, kaka, eða nýir sokkar, – en alltaf var mildi hláturinn hennar aðeins seinni en kápan hennar, og þá vissu allir að það var Amma Bára sem hafði komið með sokkana, kökuna eða brauðið.
Gamla fólkið Sjónarhól var nú dáið. Mamma og pabbi ömmu Báru, stjúpbróðir hennar og frænkan sem var alltaf eins og barn. Mikið saknaði hún þeirra allra. En þegar hún var leið þá hugsaði hún um ævintýrin og allt varð betra.
Henni fannst líka gott að vinna í í handavinnubúðinni hjá systur sinni, og alltaf var hún á ferð og flugi. Hún kenndi litlum stelpum, ungum og gömlum konum handavinnu, og börnin sungu fyrir hana þegar hún kom heim til sín á Hraunhvamminn, velkomin heim amma Bára velkomin heim amma Bára, því þau þekktu hana öll, og alltaf hugsaði hún um börnin.
Nú voru til þráðlausir símar og tölvur, og ömmu Báru fannst þær svo sniðugar, sérstklega þetta ósýnilega net sem allir vou að tala saman á út um allan heim, svo var fólk líka að kaupa og selja hluti á netinu. Hún hugsaði hvað þau hefðu nú orðið hissa mamma hennar og pabbi ef að þau hefðu heyrt um svona net.. -Af því að einu netin sem að þau höfðu vitað um voru bara fiskinet, en allir kölluðu þetta net fyrir internetið og henni fanst það hreinustu töfrar því að fólk virtist finna allt mögulegt á þessu neti, já, hún ætlaði sko að fá sé svona net.
Prinsinn hennar var nú allveg orðinn hvíthærður og svolítið stirður, hann var hættur að vinna í álverksmiðjunni fyrir nokkrum árum, en eins og amma Bára þá var hann alltaf að hjálpa börnunum sínum, eða að passa barnbörnin. Þau voru líka orðin langamma og langafi. Amma Bára sveif nú syngjandi um húsið þeirra á hraunhvamminum og allt sem hún snerti virtist glitra og hvar sem hún fór þá ylmaði loftið, af því að hún átti allveg grilljónir af ilmvatni sem hún sprautaði út um allt af því að hún elskaði góða lykt, og kallaði það vellyktandi.
Það var sólríkur vordagur og amma Bára sat í fína rokkókóstólnum sem hún hafði saumað, en hann var svartur og með blómamynstri í öllum regnbogans litum. Hún sat i ganginum, útidyrahurðin var galopin á Hraunhvamminum, það var búið að vera eins og hásumar undanfarnar vikur. Fólkið í bænum mundi ekki aðra eins sumarblíðu í mörg herrans ár, samt var vorið bara rétt að hefjast.
Amma Bára var með sólgleraugu af því að sólin skein svo skært. Hún heyrði að prinsinn hennar var að bardúsa eitthvað í eldhúsinu og skömmu síðar kom hann með drykk handa henni í fínu kristalsglasi, hann setti það á litla borðið sem var saumað út með fallegum engla-myndum og yfir myndinni var máttulega sniðin glerplata. Hann lagði glasið á borðið við hliðina á þrem alveg eins kristasglösum, gerðu svo vel elskan mín sagði hann, hér er trönuberjasafi. Amma Bára leit á hann og brosti, já takk elsku prinsinn minn, sagði amma Bára, nú er ég með allt sem mig langar í; trönuberja safa, orkudrykk, vatn og sérrý. Hún horfði svo á eftir honum þegar hann var að labba til baka inn í eldhús. ósköp gekk hann hægt. Hann töfraði mig alveg upp úr skónum – og ég hef alltaf átt svo fallega skó, sagði hún svo og lyfti báðum fótunum beint upp í loftið, en núna var hún bara í bleikum og mjúkum sokkum, og svo var hún í beiku mjúku náttfötunum sínum þó að það væri miður dagur.
Hún leit út yfir hvamminn, þarna í hrauninu höfðu börnin hennar leikið sér og líka barnabörnin, en í dag í þessari blíðu voru enginn börn í hrauninu, sennilega eru flest börnin í skólanum núna, hugsaði amma Bára, en þarna var ein hrafn í hrauninu; krunk krunk krunk kallaði hrafninn til ömmu Báru.
Amma Bára var í náttfötunum í marga daga, hún var orðin lasin og hún var svo veik að hún gat ekkert borðað, en henni fannst gott að fá að drekka, helst ííískalt, þá leið henni miklu betur betur. En hún hugsaði um ævintýrin og hún var ekki leið, hún var aldrei einmanna heldur, af því að prinsinn hennar og börnin hennar, barnabörnin, barnabarnabörnin, systir hennar og bræður hennar, börnin þeirra
og börnin þeirra, vinkonur hennar og vinir og vinir vina hennar, og bara ótrúlega mikið af fólki – ekki bara úr bænum og borginni heldur allstaðar úr landinu, og líka frá útlöndum, voru alltaf að koma að heimsækja hana. Allir voru svo leiðir að hún væri svona veik, og allir vildu hjálpa Báru.
En amma Bára sagði öllum sögur og ævintýri og núna var uppáhalds ævintýrið hennar ekki Öskubuska, Þyrnirós, Rauðhetta eða Mjallhvít, heldur var það ævintýrið, sem endaði eitt fallegt kvöld þegar tunglið skein á silfurlita hárið hennar og hún hafði prinsinn sinn og fjölskylduna hjá sér þar sem hún lá í rúminu. Klukkan sló tíu um kvöldið og mamma hennar kom í hvítum glitrandi kjól og kyssti hana.. Bára var svo glöð því að hún vissi að hún var að fara að hitta systur sínar Bárurnar á sjónum, og með þeim var hún að fara í alveg nýtt ævintýri, en uppáhalds ævintýrið hennar byrjaði svona
Einu sinni var lítil stúlka.
Hún bjó í litlum bæ, hátt uppi á hól í litlu húsi sem hét Sjónarhóll. Bærinn var í fallegum firði og þegar veðrið var gott, þá fannst henni gaman að horfa á hafið frá Sjónarhól og sjá allar bárurnar glitra á haffletinum. Hún ímyndaði sér þær vera systur sínar og hvort sem sólin skein eða þegar að tunglið glitraði á hafflötinn, þá voru þær svo lokkandi og fagrar.
Stúlkan hét Bára.
